. - Hausmynd

.

Ágæta frændfólk

            Óðfluga líður tíminn,ættarmótshelgin verður komin áður en við vitum af.Eins og áður hefur komið fram,verður hátíðin okkar 11.-13. júlí. Fólki er velkomið að mæta á föstudeginum,en sameiginleg dagsskrá hefst kl.11 á laugardagsmorgninum með gönguferð á Eldborg, síðan verður dagsskráin bara spiluð af fingrum fram. En við getum lofað ykkur því að það verður gaman; leikir fyrir alla umsjón Þórhalla Guðbjarts. söngur allir og svo verða einhverjar óvæntar uppákomur.Og endilega ef þið hafið eitthvað skemmtilegt fram að færa, þá komið með það. Ekki spillir að mæta með sippubönd, húllahringi, bolta, spil, töfl.

            Eins og við höfum hugsað okkur þetta, þá verður framkvæmdin í raun okkar allra. Á laugardeginum, eftir fjallgönguna, svona uppúr kl.3 verði sameiginlegt kaffihlaðborð, hver fjölskylda komi með eitthvað og setji á hlaðborð, kaffi,mjólk og te verður á staðnum, aðra drykki verður fólk að sjá um sjálft fyrir sitt fólk. Eins verður með kvöldmat á laugardeginum, þá grillar hver fyrir sig, stórt grill er á staðnum, en ekki spillir þó fólk komi með kolagrillin sín, en það verður bara grillað á einu svæði, ekki á tjaldsvæði.

            Á Snorrastöðum er rekin hestaleiga  og getur fólk nýtt sér það ef vill (ekki inní kostnaði), hægt að ganga um svæðið, t.d. fara niður í fjöru.

            Í skálanum sem við fáum eru 34 rúm, sem við fáum afnot af og ætlum við þau frekar fyrir eldra fólk og þá, sem ekki geta verið í tjaldi. Það þarf að panta þessi rúm (án rúmfata) sérstaklega hjá okkur. Og nú er stóra spurningin; Hvað ætla margir að mæta? Það þurfum við að vita fyrir 17.júní. Við ætlum að biðja ykkur að greiða staðfestingargjald kr.1000 pr. mann frá 6 ára aldri til 99 ára inn á reikning 404474 í Sparisjóði Mýrasýslu þ.e. 1103-05-404474 kt.2805462919. Setja í skýringu fjölda þeirra sem koma. Endanlegur kostnaður fer eftir þátttöku. Inni í kostnaðinum  er öll aðstaða.

            Nú treystum við á ykkur að hafa samband og þið systkinabörn sjáið um ykkar ættleggi, láta vita og hvetja til að mæta.

 

                                               Kveðja,ættarmótsnefndin.

                                    Gunna Mæja sími 437-1572  sigunna@simnet.is

                                    Már               sími 557-4851  jklettur@talnet.is

                                    Guðbjörg      sími 554-1896  gus12@hi.is

                                    Siggi Jóns     sími 435-6605  sigjonss@ismennt.is

                                    Kristján         sími 435-6628  snorrastadir@snorrastadir.is


Kæru ættingjar

Eins og fram hefur komið hér á bloggfærslum Laugu, innvinklaði hún mig sem nýjan liðsauka. Gat ég engum vörnum beytt í þeim málum. Ætlaði bara að fá aðgang að síðunni til að setja inn myndirGrin. En allt í lagi með það, er bara gaman að geta lagt fólki lið og aðstoðað, og ekki síst þegar verið er að gera svona skemmtilega hluti eins og þetta, að setja Dalættina inn í einn gagnagrunnHappy. Það er alveg frábært að geta skoðað þessar gömlu og nýju myndir af ættingjunum.

Ég ætla svo að reyna að fá systkyni mín til að senda mér myndir til að setja inn á síðuna.

Það hefur líka komið fram hér að ég hafi lent í slysi. Það leikur kannski forvitni hjá einhverjum að vita hvernig slysi ég lenti í.

Ég sem sagt var að hjóla á motorkross hjóli og keyrði fram af barði og flaug einhverja metra og lenti með hausinn fyrstann í jörðina með þeim afleiðingum að brjóta tvo hryggjaliði og bráka lugnapípu. (Já mamma ég veit það. Er enginn unglingur lengurGrin )Nú er ég óðum að ná mér og verð vonandi komin á minn eðlilega hraða sem fyrst. Þarf að ganga um með spelku næstu sex vikurnar.

Það er eftir svona óhöpp sem maður fer að hugsa um þau forréttindi að geta staðið á eigin fótum Því ekki mátti tæpara standa að lífinu væri kippt undan mér. Ég er heppinn að eiga góða að, fjölskyldu ættingja og vini. Allir voru tilbúnir þegar mest á reyndi. Því er svo mikilvægt að rækta fjölskylduna ættingjana og vinina eins og við mögulega getum. 

Hlakka til að hitta ykkur öll á ættarmótinu.

Með bestu kveðju kiddó


Sumarið byrjar með norðan vindi.

Nú eru rúmar 10 vikur í ættarmót og þessar vikur verða fljótar að líða. Og áður en maður veit af er komið að því sem allir hafa beðið eftir ÆTTARMÓT. Eins og áður hefur komið fram verða herlegheitin á Snorrastöðum, sé ekki betur en þetta sé bara flott aðstaða sem uppá er boðið.

Liðsaukinn sem ætlaði að vera með mér í blogheimi, hefur því miður forfallast, Kiddó lenti í slysi og mun því miður ekki geta hjálpað til sem stendur.  Ég vona bara að hann nái sér og verði kominn á fullt áður en langt um líður.

Ef einhverjir hafa gígantískan áhuga á bloggi og langar að setja inn fréttir og myndir þá er sá hinn sami velkominn í hópinn. Bara að láta heyra í sér.  Þetta er rosalega gaman og ég tala nú ekki um allar myndirnar sem hafa komið inn, mér finnst ég þekkja fólkið nú þegar.

Endilega látið heyra í ykkur, sendið myndir eða skrifið í gestabókina.

 Sumarkveðjur úr norðan vindinum.  Lauga

 



Síðasti vetrardagur

Ég vil byrja á því að óska ykkur gleðilegs sumars Wizard, nú er sko aldeilis farið að styttast í ættarmótið,  einungis 79 dagar.  Nú er bara að athuga útilegudótið, það er víst aldrei of snemmt að gera það hahaha, hvað eigi að skella á grillið og allt svoleiðis, nei nei bara að reyna að hrist smá upp í ykkur.  Búin að setja nýtt albúm inn "Bland í poka" þar eru gamlar myndir og ættarmótsmyndir (vonandi).

Endilega skrifið í gestabókina, bara smá kvitt fyrir innlitið.

Kveðja Lauga 


Myndband

Setti saman smá myndband úr myndum sem mér hafa verið sendar.

Mun síðan setja þær inn í albúm en þá með skýringum.  Endilega smellið á myndbandið hérna vinstra megin á síðunni.

Kveðja Lauga 


Liðsauki

Mér hefur borist liðsauki. Já og það ekki af verri endanum, hann Kiddó eða Kristinn Sigmundsson, sonur Gunnu Mæju og Simba, ætlar að hjálpa til við að halda síðunni lifandi Grin, setja inn myndir og fleira. Alveg með það á hreinu að þetta á eftir að ganga vel hjá okkur frændsystkinunum.

Kveðja Lauga 


Margur vill meira :-)

Alltaf eru að bætast við nýjar myndir og nú er komin 5 myndaalbúm. Ég vil bara biðja ykkur að halda áfram að senda inn efni eða myndir.  Svo líka að skrifa í gestabókina eða komment á það sem er skrifaðWink.  Gaman væri að fá einhverjar sögur af þessum hóp og ef þið eigið videoupptökur af ættarmótum, þá er hægt að skella því hérna inn líka.

Kveðja Lauga

sbj.fjeldsted@gmail.com (þetta er netfangið sem má senda á)


Vísur eða stökur Dal systra, Röggu, Dísu og Guggu.

 Halló öll sömul!! Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að setja hér inn geypilegan skáldskap sem mun hafa verið saminn í tjaldinu Meyjarlundur (vissulega skáldlegt) í ágúst að áliðnum slætti,nánar tiltekið þann 9.árið 1938.

Gugga er skítug um fæturnar,
hún er nú meiri sóðinn.
Nælir í skóna bæturnar,
og hleypur á eftir Óðinn.

Dísa sat úti á steini,
ekkert varð henni að meini,
hún fékk ekki einu sinni kvef,
hér er komið lítið stef.

Ragga sat inni í tjaldi
og raular lítið lag,
Gugga er á hennar valdi,
og kveður með undra brag.

Doddi tissar,
og Magga pissar,
Gugga rak upp hnegg,
mamma hvissar,
Dísa flissar,
pabbi reitir sitt skegg.

Segið allar pissum pass,
fósturlandsins rönd,
fellur eins og flís við rass,
fyrir mína hönd.       

Þið kæru aðstandendur skáldkvennanna,Röggu,Dísu og Guggu,getið rétt ímyndað ykkur hvort ekki hefur verið flissað.Fann þetta gulnaða blað fyrir tilviljun þegar við fórum í gegnum blaðadót.

 Þessi síðasta er gerð sumarið 1937.   Kv. Sæa.     

Fannst þetta eiga heima á forsíðu, þannig að ákvað að færa þetta úr Gestabókinni og hingað yfir.

Kveðja Lauga       


Myndir Myndir

Já myndirnar eru farnar að streyma inn, þetta er alveg frábært. Ég reyni eftir bestu getu að setja þær inn á síðuna og þá undir réttum ættboga. Frábært væri að fá texta með myndunum, því ég er ekki það glögg að vita hverjir eru á hverri myndBlush, (held að ég sé ekki ein um það).                                            

Nú eru komnar 3 myndamöppur, Ættbogi Dísu og Röggu Ásmunds og svo Kalla í Dal.

Skelli hérna einni mynd sem pabbi sendi mér, veit að þarna er langamma í Dal,Jónína ásamt fleirra fólki, gaman væri ef þið hefðuð fleirri nöfn á þetta fólk.

Kveðja Lauga 


Myndir segja söguna!!!!

Sæl verið þið.

 Nú þegar eru myndir byrjaðar að berast til mín Grin, sem er einmitt það sem ég vildi, skellti inn þessum myndum sem ég fékk frá Sæu (Bjössi) og þeim sem ég var búin að sanka að mér. Nú er bara að bretta upp ermarnar og grafa í kössum og kirnum og finna myndir skanna inn og senda Blush.

Auglýsa síðan síðuna til allra þeirra sem þekkja okkur og eru líka skyldir þessari frábæru fjölskyldu.

Kveðja Lauga (Gylfadóttir)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband